Activity

Langleiðin: Bláfjallahryggur endilangur og Vífilsfell

Download

Trail photos

Photo ofLangleiðin: Bláfjallahryggur endilangur og Vífilsfell Photo ofLangleiðin: Bláfjallahryggur endilangur og Vífilsfell Photo ofLangleiðin: Bláfjallahryggur endilangur og Vífilsfell

Author

Trail stats

Distance
8.82 mi
Elevation gain
2,490 ft
Technical difficulty
Moderate
Elevation loss
3,566 ft
Max elevation
2,231 ft
TrailRank 
41
Min elevation
702 ft
Trail type
One Way
Time
3 hours 30 minutes
Coordinates
317
Uploaded
April 16, 2023
Recorded
April 2023
Share

near Hafnarfjörður, Höfuðborgarsvæði (Ísland)

Viewed 698 times, downloaded 13 times

Trail photos

Photo ofLangleiðin: Bláfjallahryggur endilangur og Vífilsfell Photo ofLangleiðin: Bláfjallahryggur endilangur og Vífilsfell Photo ofLangleiðin: Bláfjallahryggur endilangur og Vífilsfell

Itinerary description

Þessi leið er kölluð Langleiðin vegna þess að að þetta er lengsta og erfiðasta skilgreinda leiðin innan marka Kópavogs. Hún liggur eftir endilöngum Bláfjallahrygg og auk þess er bæjarfjallið Vífilsfell toppað í leiðinni. Gangan sjálf getur hafist á hvorum enda og má gjarnan fara eftir vindátt, en athugið að það bætist við hækkunina ef þið byrjið við Vífilsfell. Það eru nokkrir staðir á leiðinni sem geta valdið erfiðleikum í vetrarfærð og þarf ísöxi og fjallabrodda en frá júní og fram í lok september jafnvel október þá á þessi gönguleið að vera öllum fær sem á annað borð stunda fjallgöngur að einhverju ráði. Þetta er nokkuð löng leið og uppsöfnuð hækkun mikil en útsýnið er stórkostlegt þegar skyggni er gott. Hafa ber í huga að leiðin er frá A til B og því þarf að skilja eftir bíl á endastað eða gera aðrar ráðstafanir.

Waypoints

PictographWaypoint Altitude 1,835 ft

Strompar

Á leiðinni upp hlíðina sést til gíganna í suðvestri við gönguskíðasvæðið sem kallast einu nafni Strompar. Bláfjallahellar eru í námunda við gígana. Hraunið sem rann úr þeim er eitt af hraununum sem kallast Húsfellsbruni og nær að vera hluti af Hólmshrauni við Suðurlandsveg og Lækjarbotna. Gígarnir við Stóra-Kóngsfell og Drottningu gusu síðar og runnu hraunin yfir hraunin úr Strompum. Öll þessi hraun runnu fyrir landnám.

PictographWaypoint Altitude 1,659 ft

Skíðafélög

Skíðagöngufélagið Ullur er með aðstöðu sunnan við bílastæðið og þar er jafnframt stólalyfta sem var reist árið 2022. Sunnan megin við bílastæðið er skíðaskáli Ármanns og diskalyfturnar tvær kallast Jón Oddur og Jón Bjarni eftir tvíburunum frægu úr sögum Guðrúnar Helgadóttur.

PictographWaypoint Altitude 2,073 ft
Photo ofBláfjallahorn

Bláfjallahorn

Ofan af Bláfjallahorni má sjá til Kerlingarhnúks í austri rétt handan við Kerlingardalinn og aðeins fjær er Geitafellið og skammt frá í suðri er aflíðandi dyngjan Heiðin há og kallast toppurinn á henni Heiðartoppur. Margt annað má sjá af Suðurlandi og Reykjanesskaga auk þess sem sést til sjávar. Gömul þjóðleið, Heiðarvegur, lá frá Selvogsgötu og meðfram Bláfjallahorni og Kerlingarhnúk og yfir á Ólafsskarðsveg og má sjá vörðubrot öðru hvoru. Hinn nýi Reykjavegur var stikaður að hluta meðfram Heiðarvegi.

PictographWaypoint Altitude 1,657 ft

Bláfjöll

Oft er talað um að fjarlægðin geri fjöllin blá og má gera að því skóna að það hafi spilað inn í þegar nafnið var valið á Bláfjöllin í fyrndinni. Eftir að dró úr upprekstri sauðfjár á þessum slóðum var þetta svæði fáfarið en á áttunda áratug síðustu aldar fór að byggjast upp skíðasvæði í samstarfi nokkurra sveitarfélaga. Nú koma fleiri þúsund manns að staðaldri á svæðið á meðan skíðavertíðin stendur sem hæst. Þess utan eru fáir á ferli, en það er ekki síðra að stunda útivist á sumrin því þegar snjóbreiðan er bráðnuð kemur í ljós hvað landslagið er hrátt og mótað af miklum jarðhræringum síðustu þúsundir ára.

PictographWaypoint Altitude 2,121 ft

Gosi

Stólalyftan Gosinn leysti af tveggja sæta stólalyftu með sama nafni árið 2022. Segja má að nýja lyftan sé bylting fyrir hið svokallaða Suðursvæði á skíðasvæðinu í Bláfjöllum.

PictographWaypoint Altitude 2,209 ft

Toppurinn

Þetta er hæsti kollur Bláfjalla, en hann er nafnlaus og kallast einfaldlega hnúkurinn upp af Kóngsgili.

PictographWaypoint Altitude 2,119 ft
Photo ofHákollur

Hákollur

Stólalyftan Drottningin var lögð upp á Hákoll árið 2022 og á að leysa af samnefnda tveggja sæta stólalyftu sem hefur þjónað lengi í Bláfjöllum. Frá Hákolli er annað sjónarhorn á Kerlingardal og Kerlingarhnúk en er á Bláfjallahorni.

PictographWaypoint Altitude 2,008 ft

Eldborgargil

Þar hefur skíðadeild Fram haft skála og skíðabrekkur og þangað á að koma lyfta. Gilið er til móts við gíginn Eldborg sem er í um það bil kílómeters fjarlægð í vesturátt.

PictographWaypoint Altitude 2,229 ft
Photo ofBláfjallahryggur

Bláfjallahryggur

Bláfjöllin mynduðust í sprungugosum undir jökli á ísöld eins og flest fjöll á Reykjanesskaga. Neðst er bólstraberg sem myndast á ákveðnu dýpi við gos í vatni og þar fyrir ofan er móberg sem myndast á minna dýpi og efst er grágrýti eftir hraun sem runnu þegar gígarnir komust upp úr ísaldarjöklinum. Þess vegna má finna stöku gíg uppi á Bláfjallahryggnum. Kvikan er ættuð úr eldstöðinni sem er kennd við Brennisteinsfjöll og hún hefur ferðast eftir sprungukerfunum og komið upp þarna. Nánar má fræðast um eldstöðina Brennisteinsfjöll á íslensku eldfjallavefsjánni: https://islenskeldfjoll.is//?volcano=BRE#

PictographWaypoint Altitude 1,772 ft
Photo ofDraumadalir

Draumadalir

Draumadalir eru fremur lægðir en dalir og má telja líklegt að sprungur og misgengi hafi einhver áhrif á myndun þeirra. Leysingavatn úr Draumadölum rennur í Hrafnagil og Bláfjallagil í Jósepsdal.

PictographWaypoint Altitude 1,925 ft
Photo ofJósepsdalur

Jósepsdalur

Áður fyrr var mikið skíðasvæði í Jósepsdal á vegum skíðadeildar Ármanns. Á sjöunda áratug síðustu aldar kom í ljós að þar var of snjólítið til þess að byggja skíðaaðstöðu til langframa og leiddi það meðal annars til uppbyggingar á skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Á vorin myndast gjarnan stöðuvatn í botni dalsins í leysingum og svo hverfur vatnið um leið og frost fer úr jörðu. Austan megin í Jósepsdal er Ólafsskarð og norðan við það hnúkarnir Sauðdalahnúkar og sunnan við það eru Ólafsskarðshnúkarnir. Fjögur gil eru sunnan við Ólafsskarð og heita þau frá norðri til suðurs Stökkgil, Suðurgil, Hrafnagil og Bláfjallagil.

PictographWaypoint Altitude 1,741 ft
Photo ofÁrnakrókur

Árnakrókur

Árnakrókur er eins konar dalverpi vestan megin á mörkum Bláfjallahryggs og Vífilsfells. Norðan Árnakróks er Vífilsfellshlíð.

PictographWaypoint Altitude 2,045 ft
Photo ofÚtsýnisskífan

Útsýnisskífan

Útsýnisskífunni á toppi Vífilsfells var komið upp af Ferðafélagi Íslands árið 1940 og hún sýnir helstu örnefni allan sjóndeildarhringinn. Bláfjallafjallgarðurinn teygir sig í suðurátt frá Vífilsfelli og við syðsta enda hans er skíðasvæðið þar sem þúsundir manna renna sér á fallegum vetrardögum. Þarna á tindinum er fallegt útsýni og stillt sumarkvöldin eru ógleymanleg þegar sólin er að setjast í vestri.

PictographWaypoint Altitude 1,631 ft

Jarðfræði Vífilsfells

Móbergsfell eins og Vífilsfell eru algeng á Íslandi en þau verða til þegar eldgos verður undir vatni, jökli eða sjó þannig að bólstraberg og aska eða gjóska hleðst upp. Brennandi heit gjóskan myndar leðju sem kallast túff og límist saman og verður að móbergi þegar hún kólnar og harðnar. Móberg er mjög sjaldgæft annars staðar í heiminum en á Íslandi og eitt af því sem gerir jarðfræði Íslands einstaka. Vífilsfell myndaðist í tveimur gosum undir ísaldarjökli. Fyrra gosið komst upp úr ísnum svo að hraun fór að flæða og þess vegna er þessi hluti Vífilsfells svokallaður stapi með bröttum hlíðum og tiltölulega flötum toppi. Nokkrir þekktir móbergsstapar eru hér á landi en nefna má sem dæmi Herðubreið, Hrútfell og Eiríksjökul sem er sá stærsti þeirra. Þessi efsti hluti Stallsins er því toppurinn á Vífilsfelli eftir fyrra gosið og úr basalti sem er mun harðara en móbergið. Seinna gosið í Vífilsfelli hefur orðið þegar ísaldarjökullinn hefur verið töluvert þykkari en í fyrra gosinu. Í það skiptið hefur gosið vestan megin í Vífilsfelli og hlaðist upp móbergshraukur mun hærra upp en Stallurinn, en samt komust gosefnin ekki upp fyrir ísinn og þess vegna er móberg á toppi Vífilsfells.

PictographWaypoint Altitude 1,153 ft

Kjarval

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972) er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar, frumkvöðull í málaralist og var goðsögn í lifanda lífi. Hann hafði sérstakt dálæti á Vífilsfelli og málaði það margsinnis á þriðja, fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Dvaldi hann þá úti í Svínahrauni og víðar á svæðinu og málaði hraunið og Vífilsfell frá ýmsum sjónarhornum. Hugsanlega má enn þá finna uppurnar málningartúpur hans í hraunglufum enda fór Kjarval oft í hálfgerðan trans þegar hann var að mála og túpurnar lágu stundum eins og hráviði í kringum trönurnar eftir vinnudagana. Honum var umhugað um fleira þarna í nágrenninu og þótti sérstaklega vænt um rjúpurnar í hrauninu og amaðist við því að menn væru að skjóta þessa vini hans á haustin.

Comments

    You can or this trail