Activity

Heimskautsgerðið

Download

Trail photos

Photo ofHeimskautsgerðið Photo ofHeimskautsgerðið Photo ofHeimskautsgerðið

Author

Trail stats

Distance
1.79 mi
Elevation gain
121 ft
Technical difficulty
Easy
Elevation loss
121 ft
Max elevation
148 ft
TrailRank 
42
Min elevation
18 ft
Trail type
Loop
Moving time
36 minutes
Time
36 minutes
Coordinates
525
Uploaded
July 1, 2021
Recorded
July 2021
Share

near Raufarhöfn, Norðurland Eystra (Ísland)

Viewed 795 times, downloaded 10 times

Trail photos

Photo ofHeimskautsgerðið Photo ofHeimskautsgerðið Photo ofHeimskautsgerðið

Itinerary description

Heimskautsgerðið er staðsett við nyrsta bæ Íslands, Raufarhöfn, þar sem heimskautsbaugur liggur næst allra þéttbýlisstaða á landinu. Þar er dagurinn hvað lengstur á sumrin og stystur á veturna og sest sólin ekki í nokkrar vikur í kringum sólstöðurnar. Að sökum þess hversu nálægt heimskautsbaugi staðurinn er, þá er birtan þar einstök og hvergi stórkostlegra að upplifa sumarsólstöðurnar. Heimskautsgerðið stendur á hæð sem kallast Melrakkaás sem er rétt fyrir ofan bæinn Raufarhöfn. Sérstaða staðsetningarinnar er sú að þar er að finna hreinan sjóndeildarhring á landi þannig að ekkert skyggir á ljós sólar og tungls. Öll sólris og sólsetur sjást þar af leiðandi, að því gefnu að ekki sé skýjað. Heimskautsgerðið er ansi stórt, en ysti hringur þess er um 50 metrar að þvermáli og innan þess er 11 metra hár, fjögurra arma steinstrúktúr sem fangar sólarljósið. Fjögur hlið eru á ysta hring gerðisins sem opnast hvert um sig í höfuðátt og afmarka þau jafndægur og sólstöður. Þegar sólin skín í gegnum Austur-hlið þá er jafndægur en haustdægur þegar hún skín í gegnum Vestur-hlið hringsins. Á sumarsólstöðum, þegar sólargangurinn er lengstur, þá skín sólin í gegnum Norður-hlið og í gegnum Suður-hlið á vetrarsólstöðum, þegar sólargangurinn er stystur.
Heimskautsgerðið blandar saman nútíð og fornnorrænni menningu með því að færa dvergatal Völuspár til nútíðar. Hugmyndin er að hafa steina inn í gerðinu sem mynda hring þar sem hver steinn táknar ákveðinn dverg. Dvergarnir eru alls 72 talsins og hefur þeim verið raðað inn í árið þannig að hver vika spannar 5 daga. Allir dvergarnir hafa sitt hlutverk og sín séreinkenni. Hægt er að mynda tengsl við dvergana meðal annars með því að tengja þá við afmælisdaga. Þannig geta allir fundið sinn dverg samkvæmt afmælisdegi og fengið upplýsingar þar sem gömlu mánaðarheitin koma fram ásamt því goði sem mánuðurinn tilheyrir. Heimskautsgerðið tvinnar því saman fyrirbæri úr forni bókmennta- og menningarsögu Íslendinga við sólarljósið sem skartar sínu fegursta á svæðinu.

Gangan hefst við Hótel Norðurljós og þaðan er gengið gamla veginn upp Klifinn. Klifagatan liggur að Sléttuvegi og þaðan er haldið veginn að Melrakkaási. Farið er upp brúnna Bifröst sem leiðir að Heimskautsgerðinu þar sem gengið er inn um Austur-hlið gerðisins. Frá Heimskautsgerðinu liggur leiðin niður slóðann á milli Hlið Vestursins og Hlið Suðursins. Gengið er sama veg til baka þar til komið er að Sléttuvegi. Þá er haldið Sléttuvegin áfram niður að gatnamótunum. Beygt er til vinstri á gatnamótunum og í átt að Hótelinu þar sem gönguleiðinni líkur.
Í flöggum leiðarinnar má sjá gömlu mánuðina og þau goð sem þeir tilheyrðu, ásamt karakterlýsingum dverganna. Þar eru dvergarnir tengdir við árhringinn og persónugerðir í kveðskap sem er eftir Jónas Friðrik Guðnason.

Waypoints

PictographWaypoint Altitude 101 ft

Hlið Suðursins

Dvergurinn Suðri á að tróna á toppi þessara hliðs. Þann stein væri æskilegt að fá frá Vestmannaeyjum eða af Heklu sjálfri. Innan við þetta hlið eiga dvergar sumarsins að vera.

PictographWaypoint Altitude 121 ft

Hlið Norðursins

Hlið Norðursins er hlið þar sem dvergurinn Norðri á að tróna á toppnum og er ætlunin að fá þann stein frá Grímsey. Vetrardvergarnir eiga að vera í innri hringnum hjá þessu hliði.

PictographWaypoint Altitude 100 ft

Hlið Vestursins

Hlið Vestursins er hlið haustsins og gætir dvergurinn Vestri þessara hliðs. Stein þennan væri hægt að fá frá Vestfjörðum. Innan við þetta hlið eiga dvergar haustsins að vera.

PictographWaypoint Altitude 128 ft

Hlið Austursins

Þetta er hlið vorsins með dvergnum Austra á toppnum. Þann stein er ætlunin að fá frá Austurlandi, til dæmis frá Papey eða Gerpi. Í innri hringnum eiga dvergar vorsins að vera.

PictographWaypoint Altitude 88 ft

Heyannarmánuður - tímabil Freyju (19. júlí - 19. ágúst)

Heyannir hefst á sunnudegi eftir aukanætur á miðju sumri á bilinu 23. - 30. júlí. Í þessum mánuði voru heyannir og þaðan kemur nafnið Heyannarmánuður. Heyannarmánuður tilheyrir goðinu Freyju. Freyja er fegurst og tignust af ásynjunum. Hún býr á Fólkvangi þar sem Sessrúnir mikill og fagur salur og sæti fyrir ótölulegan fjölda. Óður maður hennar var kauphéðinn mikill og fór um heiminn og úr einni af þeim ferðum kom hann ekki aftur. Þá grét Freyja gulltárum og leitaði hans í valsham um allan heim. Freyja er ástargyðja. Vikan 19. - 24. júlí Dvergurinn Svíur Svíur sá sem kemur og fer (er í feluleik) "Svíur kemur, felur sig og fer Finnst þér hann vera starfsmaður opinber?" Vikan 25. - 30. júlí Dvergurinn Frægur Frægur hinn frægi, gömul afrek "Hann minnir á forna frægðarljómann - löngu orðinn innantóman" Vikan 31. júlí - 4. ágúst Dvergurinn Frár Frár hinn eldfljóti hlaupagarpur "Sá létti hlaupastíll er listin tær leggur af stað á morgun og kemur í gær" Vikan 5. - 9. ágúst Dvergurinn Hornbori Hornbori, drykkjarhornasmiðurinn "Þegar öl úr horni hressir sál hornasmiðsins drekka ættum skál" Vikan 10. - 14. ágúst Dvergurinn Vegdrasill Vegdrasill sá seinfæri eða hægláti "Asa og fumi út skal bægt eins má komast þó förum hægt" Vikan 15. - 19. ágúst Dvergurinn Alvís Alvís sá sem allt veit "Einn af þeim sem alla hluti veit og óferjandi þykja í hverri sveit"

PictographWaypoint Altitude 95 ft

Sólmánuður - tímabil Heimdallar (19. júní - 18. júlí)

Sólmánuður hefst á mánudegi í 9. viku sumars á bilinu 18. - 24. júní. Þarna er sólin hæst á lofti, þá eru sólstöður og þaðan kemur nafnið Sólmánuður. Sólmánuður tilheyrir goðinu Heimdalli. Heimdallur á hrút þann er Hallinskíði heitir, hann fylgir honum hvert sem hann fer. Reifi hrútsins er svo bjart að af lýsir. Hest á Heimdallur líka er Gullintanni heitir. Heimdallur býr þar er heitir Himinbjörg við Bifröst. Hann er vörður goðanna. Vikan 19. - 23. júní Dvergurinn Alþjófur Alþjófur hinn fullkomni þjófur, virðist tengt afleggjurum "Heldur er í hirðusemi grófur og hann er frægur afleggjaraþjófur" Vikan 24. - 28. júní Dvergurinn Lóni Lóni hinn lýsandi, færir ljós í skúmaskot "Fjölmiðladvergur sem lýsir skúmaskotin á skúrka sem þar kúra með áform rotin" Vikan 29. júní - 3. júlí Dvergurinn Aurvangur Aurvangur er byggingameistarinn (Aurvangur er líka bústaður dverga) "Bústað dverga byggði sá og bókaði hann nafn sitt á" Vikan 4. - 8. júlí Dvergurinn Jari Jari hinn þrasgjarni (orrustudvergur) "Hér er þras og þrætugirni rík þessi dvergur fer í pólitík" Vikan 9. - 13. júlí Dvergurinn Eikinskjaldi Eikinskjaldi sá sem gengur með eikarskjöld "Virðist okkur veröld grimm og köld er vissara að bera góðan skjöld" Vikan 14. - 18. júlí Dvergurinn Hannar Hannar hinn leikni uppfinninga dvergur "Ólgandi hugur Hannars við nýjungar fæst Fer hann kannski að fikta við atómið næst?"

PictographWaypoint Altitude 98 ft

Haustmánuður - tímabil Loka (19. sept - 18. okt)

Haustmánuður hefst á fimmtudegi í 23. viku sumars á bilinu 20. - 26. september. Þarna er haustið komið og því kallast hann Haustmánuður. Haustmánuður tilheyrir goðinu Loka. Loki er sá sem veldur usla hjá ásunum. Hann er í senn illur og uppátækjasamur en einnig úrræðagóður og leysir vanda sem hann hefur sjálfur búið til. Kona hans er Sigyn og hún sér um að jafnvægi haldist í kringum Loka. Loki á líka 3 börn með Angurboða sem eru svo skelfileg að goðin létu sækja þau og koma þeim fyrir. Vikan 19. - 23. september Dvergurinn Gandálfur Gandálfur sá sem kann töfra (er með mikinn staf) "Galdradvergur. Stafinn stinnan og sveran, stoltur reistan upp fyrir höfuð ber hann" Vikan 24. - 28. september Dvergurinn Vindálfur Vindálfur sá sem ræður haustvindum "Vindar haustsins þyrla litríku laufi lært að stjórna þeim getur enginn klaufi" Vikan 29. september - 3. október Dvergurinn Yrsi Yrsi sá sem svæfir gróður (tengdur gróðurgyðjunni Irpu) "Er veturinn nálgast vinurinn góður syngur í blundinn sumargróður" Vikan 4. - 8. október Dvergurinn Vitur Vitur til hans er leitað í vandræðamálum "Að leysa vanda varla neitar er vinur sem í raun þú leitar" Vikan 9. - 13. október Dvergurinn Ráðsviður Ráðsviður sá sem kann ráð við öllu (ráðgjafi dvergakonungs) "Ræður konungi ráðin skjótur var ráðgjafi konungs ekki oftast þrjótur?" Vikan 14. - 18. október Dvergurinn Reginn Reginn sá sem gerir áætlanir í tíma "Sá sem skelfur ei þó blási kalt um kinn sem kann að undirbúa veturinn"

PictographWaypoint Altitude 114 ft

Gormánuður - tímabil Víðars (19. okt - 18. nóv)

Gormánuður hefst á laugardegi á bilinu 21. - 28. október. Heimaslátrun hófst og gorinn flæddi, þess vegna heitir mánuðurinn Gormánuður. Gormánuður tilheyrir goðinu Víðari. Víðar er bróðir Þórs og er mikill veiðigarpur. Hann býr að Víðvangi og er einfari. Víðar hefnir Óðins í ragnarökum og drepur Fenrisúlf. Hann endurreisir heiminn eftir ragnarök. Vikan 19. - 24. október (fyrsta vika vetrar) Dvergurinn Vetrarfaðir Vetrarfaðir sá sem kallar inn veturinn (hvítklæddur) "Bíður veturinn velkominn vafinn í hvíta feldinn sinn" Vikan 25. - 29. október Dvergurinn Frosti Frosti sá sem býr til frostrósir "Hagur málar ljósum litum listaverk af hvítum rósum" Vikan 30. október - 3. nóvember Dvergurinn Fjalar Fjalar sá klóki bragðarefur "Þú veist ei hvar þennan hefur þetta er mesti bragðarefur" Vikan 4. - 8. nóvember Dvergurinn Fjörkaldur Fjörkaldur honum fylgir oft stórhríð "Fjörkaldur er fer um jörð fylgir stórhríð grimm og hörð" Vikan 9. - 13. nóvember Dvergurinn Þrár Þrár sá þrjóski, gefst aldrei upp "Þó Dvalinn sumum þyki hver þverhaus meiri finnum hér" Vikan 14. - 18. nóvember Dvergurinn Niði Niði sá dökki, er tengdur minnkandi tungli "Máni sá er undan úlfi flýr á hans fylgd, í næturskugga býr"

PictographWaypoint Altitude 122 ft

Mörsugur - tímabil Freys (21. des - 19. jan)

Mörsugur hefst á miðvikudegi í 9 viku vetrar á bilinu 20. - 27. desember. Erfiðasti tími vetrarins saug allan þrótt úr fólki og þaðan kemur nafnið Mörsugur. Mörsugur tilheyrir goðinu Frey. Freyr býr í Álfheimum. Hann ræður fyrir regni og skinu sólar. Hið mikla skip Skíðblaðnir tilheyrir Frey og Gölturinn Gullinnbursti. Kona Freys er Gerður Grímnisdóttir og sonur þeirra er Fjölnir. Freyr er forfaðir sænsku ynglinga konungsættarinnar. Vikan 21. - 25. desember Dvergurinn Bávör Bávör sá sem skreytir jólatré (skjaldskreytir) "Pentar skjöld með skrautlegt spé og skreytir líka jólatré" Vikan 26. - 30. desember Dvergurinn Bömbur Bömbur sá feiti og káti jóladvergur "Jóladvergur digur og kátur drjúgur við hangiket og slátur" Vikan 31. desember - 4. janúar Dvergurinn Nóri "Lítill dvergur, ljúfur bæði og vær líkt og fleirum jól eru honum kær" Vikan 5. - 9. janúar Dvergurinn Án (Áin) Án sá sem skráir ættir (móðurættir) "Sanna vissu þessi þráir og þekktar móðurættir skráir" Vikan 10. - 14. janúar Dvergurinn Ái Ái sá sem skráir föðurættir "Lætur eins og dyggðin dafni dregur upp ætt af föður nafni" Vikan 15. - 19. janúar Dvergurinn Ánar Ánar veit allt um gerðir forfeðra og mæðra "Veit allt um eldri ættir þínar og artir þeirra miður fínar"

PictographWaypoint Altitude 125 ft

Þorri - tímabil Njarðar (20. jan - 18. feb)

Þorri hefst á föstudegi í 13. viku vetrar á bilinu 19. - 26. janúar. Þorrinn var tileinkaður Þrumugoðinu Þór og tengist nafnið líklega Þórsnafninu. Þorrinn tilheyrir goðinu Nirði. Njörður er af vanaættum og býr að Nóatúni. Hans kona er Skaði en fyrir hann Frey og Freyju. Njörður er siglingagoð og ræður hann fyrir göngu vinds stillir elda. Á hann skal heita til sjóferða, veiða og einnig til árs og friðar. Vikan 20. - 24. janúar Dvergurinn Mölur Mölur er sá útsmogni "Lumar bæði á leikni og klækjum lítið gull til hans við sækjum" Vikan 25. - 29. janúar Dvergurinn Náli (Nár) Náli er klæðskerinn "Kann sá vel klippa og sníða klæði að sauma, bæta og prýða" Vikan 30. janúar - 3. febrúar Dvergurinn Nýráður Nýráður sá sem kemur á óvart "Undrun þessi ætið vekur, upp á nýju stöðugt tekur" Vikan 4. - 8. febrúar Dvergurinn Dellingur Dellingur sá skrautgjarni (glysgjarn) "Hneiðgur fyrir glys og glingur gulli prýðir hvern sinn fingur" Vikan 9. - 13. febrúar Dvergurinn Draupnir Draupnir er skartgerðardvergurinn (gullsmiður) "Dvergabauga drottir jarðar þrá Draupnir kann þá list að smíða þá" Vikan 14. - 18. febrúar Dvergurinn Dólgþrasi Dólgþrasi er óæskilegur andstæðingur "Að lenda ekki í illindum við hann er afbragðs hugmynd, fyrir dverg og mann"

PictographWaypoint Altitude 123 ft

Einmánuður - tímabil Óðins (21. mars - 19. apríl)

Einmánuður hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar á bilinu 20. - 26. mars. Í gamla tímatalinu hefst árið 23. mars og þess vegna var mánuðurinn kallaður Einmánuður eða einn fyrsti mánuður. Einmánuður tilheyrir goðinu Óðni. Óðinn samdi við syni Mímis um að fá að drekka af vísdómsbrunninum við eina af rótum Yggdrasils. Til að fá ósk sína uppfyllta varð hann að fórna öðru auga sínu í brunninn. Óðinn býr að Glaðheimum en veislusalir hans eru í Valhöll. Kona Óðins er Frigg hin margfróða. Vikan 21. - 25. mars Dvergurinn Vili Vili er smiður eða sá sem býr til flókna hluti (vélar) "Af list og vél hann lipurt vinnur og lausn á mörgum vanda finnur" Vikan 26. - 30. mars Dvergurinn Kili Kili er sá sem fleygar eða klífur steina tré (steinsmiður) "Þeim gagnast best er grjótið ber að gæta vel að fingrum sér" Vikan 1. - 4. apríl Dvergurinn Fili Fili sá sem gætir skáldamjaðarins og býr til búsáhöld "Af nísku skammtar skáldamjöðinn skáldunum sem rita í blöðin" Vikan 5. - 9. apríl Dvergurinn Fundinn Fundinn er sá Fundvísi "Fundinn veit um flest sem týnist og finnur það sem honum sýnist" Vikan 10. - 14. apríl Dvergurinn Skáfiður Skáfiður gróðursetur tré, bein þýðing gott tré "Hvert göfugt tré er gjöf frá þér - þú gerir ósköp lítið hér" Vikan 15. - 19. apríl Dvergurinn Álfur Álfur er frjósemisdvergur "Vekur jörð og frjósemd færir flestu því sem moldin nærir"

PictographWaypoint Altitude 111 ft

Harpa - tímabil Týs (20. apríl - 19. maí)

Harpa hefst næsta fimmtudegi eftir 18. apríl, eða á bilinu 19. - 25. apríl. Dagda er goð árstíðanna hjá Keltum og hún leikur á hörpu fyrir vorið og sumarkomu og þaðan kemur nafnið á mánuðinum Harpa. Harpa tilheyrir goðinu Tý. Týr og jarðargyðjan Nerfus systir Njarðar dvelja oft á eyju einni er Nærey heitir. Á þeirri eyju er helgur lundur þar sem Nerfus geymir vagn sinn og kvígur tvær sem draga þann vagn er hún fer ásamt Tý til mannheima. Týr er goð þinga og hernaðar, einnig er hann mikilvægur í fjölkyngi og göldrum. Vikan 20. - 24. apríl Dvergurinn Hlévangur Hlévangi hefur fylgt varðúlfur "Þann áreitir enginn né grætir sem úlfurinn fylgir og gætir" Vikan 25. - 29. apríl Dvergurinn Iði Iði sá sem er aldrei kyrr, iðinn við gullgerð "Að dotta í leti dugar ekki neitt í deiglunni ef gullið býður heitt" Vikan 30. apríl - 4. maí Dvergurinn Aurnir Aurnir sá ríki, er tengt gróðri "Bæði gróða og gróðri ann að græða þessi dvergur kann" Vikan 5. - 9. maí Dvergurinn Bjartur Bjartur sá skapgóði "Um list og speki leiðir fáar kunnar og lærði aldrei kosti geðvonskunnar" Vikan 10. - 14. maí Dvergurinn Blíður Blíður sá sem sér um fugla og skordýr (fiðrildi) "Við fiðrildasvif og fuglasöng í fegurð unir sér dægrin löng" Vikan 15. - 19. maí Ginnar sá göldrótti (með græna fingur) "Með galdralist og græna fingur við garðyrkju og fleira slyngur"

PictographWaypoint Altitude 104 ft

Skerpla - tímabil Baldurs (20. maí - 18. júní)

Skerpla hefst á laugardegi í 5. viku sumars á bilinu 19. - 25. maí. Í þessum mánuði skerpist sólin, hækkar á himni og verður sterkari. Þess vegna kallast mánuðurinn Skerpla. Skerpla tilheyrir goðinu Baldri. Baldur býr að Breiðabliki með konu sinni Nönnu. Þeirra sonur er Forseti. Frá þeim eru konungsættir Danmerkur komnar. Baldur átti hið mikla skip Hringhorna sem gat siglt bæði í byr og án byrs. Í segli Hringhorna var sólartákn sem lýsti svo af að hægt var að sigla í myrkri. Vikan 20. - 24. maí Dvergurinn Hár Hár sá langi mjói (grasvöxtur) "Grasið laðar grundu frá grannur vexti líkt og strá" Vikan 25. - 29. maí Dvergurinn Glói Glói hinn skínandi, hinn hreinláti "Dvergum þykir Glói gjarnan skrýtin gerir hreint og þolir ekki skítinn" Vikan 30. maí - 3. júní Dvergurinn Svásuður Svásuður hinn mildi blómadvergur "Mildur og stássgjarn sá stúfur og stráir blómskrúð á þúfur" Vikan 4. - 8. júní Dvergurinn Skírnir Skírnir sá sem lýsir (með ljósker) "Með ljósker þessi löngum fer og lýsir sumarkvöldin hér" Vikan 9. - 13. júní Dvergurinn Suðri Suðri sá sem heldur uppi suðrinu "Suðurhornið himins ber og hlýjan blæinn sendir þér" Vikan 14. - 18. júní Dvergurinn Virvir Virvir sá sem litar (listadvergurinn) "Um betri dverga varla vitum Virvir glæðir heiminn litum"

PictographWaypoint Altitude 91 ft

Tvímánuður - tímabil Friggjar (20. ágúst - 18. sept)

Tvímánuður hefst á þriðjudegi í 18. viku sumars á bilinu 22. - 29. ágúst. Þarna er hálft árið liðið og annað tímabil að hefjast eða seinni hlutinn af árinu og líklegt að þess vegna beri mánuðurinn nafnið Tvímánuður. Tvímánuður tilheyrir goðinu Frigg. Frigg er höfuðgyðja af ásaættum. Hún er kona Óðins og móðir tvíburana Baldurs og Höðurs. Faðir hennar er hinn lítt þekkti jötun Fjörgyn. Frigg býr að Fensölum í Ásgarði. Vikan 20. - 24. ágúst Dvergurinn Duni Duni sá alskeggjaði eða loðni "líklega honum lýsir best loðinn hvar sem í hann sést" Vikan 25. - 29. ágúst (síðasta vika sumars) Dvergurinn Dynfari Dynfari sá hávaðasami (ærslabelgur) "Með ærsl og hávaða daginn út og inn sá eini dvergur sem var aldrei fullorðinn" Vikan 30. ágúst - 3. september Dvergurinn Dvalinn Dvalinn sá hægláti (þrákálfur) "Réttast að malda í móinn og stauta og mjakast ei hót, hvað sem aðrir tauta" Vikan 4. - 8. september Dvergurinn Litur Litur er tengdur haustlitunum "Fjúkandi lauf og litaspuni fegurðin blönduð feigðargruni" Vikan 9. - 13. september Dvergurinn Vestri Vestri sá sem heldur uppi vestrinu "Sjálfsagt ekkert aðfinnsluvert eða ljótt: en hún sefur hjá honum sólin hverja nótt" Vikan 14. - 18. september Dvergurinn Veigur Veigur hinn kraftmikli, veit um lækningajurtir "Það jurtaseyði er sýpur hann var sett af lyfjanefnd í bann"

PictographWaypoint Altitude 125 ft

Góa - tímabil Þórs (19. feb - 20. mars)

Góa hefst á sunnudegi í 18. viku vetrar á bilinu 18. - 25. febrúar. Góa er vatnsgyðja og tengist hún leysingum í ám. Talað er um að í þessum mánuði undirbúi Góa og Freyja fiskgegnd í vötnum. Mánuðurinn Góa tilheyrir goðinu Þór. Þór er stór vexti, rauðskeggjaður og sterklegur mjög. Mikill mat og drykkjar maður og svo ráðvandur að jaðrar við einfeldni. Þór er verjandi goða og manna gegn óreiðum og hættulegum öflum Útgarðs. Vikan 19. - 23. febrúar Dvergurinn Haugspori Haugspori sá sem hefur gát á haugum (gröfum) "Gætir að gröfum og haugum í góðum metum hjá draugum" Vikan 24. - 28. febrúar (síðasta vika vetrar) Dvergurinn Dóri Dóri trúðurinn síkáti sem fagnar síðustu viku vetrar "Gamansamt grallaratetur, gleðst þegar kveður vetur" Vikan (29. febrúar) 1. - 5. mars (fyrsta vika vors) Dvergurinn Grítingur Grítingur sá sem veit um óskasteina "Boðar veröld vorið hreinast og veit hvar óskasteinar leynast" Vikan 6. - 10. mars Dvergurinn Hefti Hefti sá sem kemur í veg fyrir vorfrost "Vinnur sérhvert vor sem má, að víkja frosti gróðri frá" Vikan 11. - 15. mars Dvergurinn Austri Austri sá sem heldur uppi austrinu "Austursins gætir og annast líka það að vekja sólina og senda hana af stað" Vikan 16. - 20. mars Dvergurinn Várkaldur Várkaldur hefur gát á nýgræðingum (vorgróðri) "Vinnur iðinn að vorsins málum, gætir að nýjum gróðurnálum"

PictographWaypoint Altitude 120 ft

Ýlir - tímabil Ullar (19. nóv - 20. des)

Ýlir hefst á mánudegi í 5. viku vetrar á bilinu 20. - 27. nóvember. Þarna fara vindar að herða og það ýlir í vindinum, því kallast mánuðurinn Ýlir. Ýlir tilheyrir goðinu Ulli. Ullur á þann boga er Allvaldsbogi heitir. Hann er einnig skíðagarpur mikill. Ullur er sonur Sifjar konu Þórs. Hann er uppeldissonur hans. Seinna giftist Ullur Skaða og þau eignast Ívaldasyni sem bjuggu að Ýdölum. Vikan 19. - 23. nóvember. Dvergurinn Mótsognir Mótsognir sá sem hefur allt á hornum sér, sá þreytti "Af önnum bæði mæddur og móður og minna en lítið í skapi góður" Vikan 24. - 28. nóvember Dvergurinn Durinn Durinn sá sem gætir innganga í dvergheima "Inn í dvergheim enginn fer sem ekki honum að skapi er" Vikan 29. nóvember - 4. desember Dvergurinn Dvalinn Dvalinn sá sem gerir ekkert án þess að hugsa sig vandlega um "Þá aðra grunar að hann sé að slugsa er hann bara næsta leik að hugsa" Vikan 5. - 9. desember Dvergurinn Vindsvalur Vindsvalur það gustar af honum, lokar aldrei á eftir sér "Inn með gusti og gassa fer og gleymir að loka á eftir sér" Vikan 10. - 15. desember Dvergurinn Norðri Norðri sá sem heldur uppi Norðrinu "Norðurskauti himins hampar hrjóta af augum kaldir glampar" Vikan 16. - 20. desember Dvergurinn Bívör Bívör er skreytingameistarinn "Laginn við að bæta og breyta Bívör sér um það að skreyta"

PictographWaypoint Altitude 112 ft
Photo ofHeimskautsgerðið Photo ofHeimskautsgerðið Photo ofHeimskautsgerðið

Heimskautsgerðið

PictographWaypoint Altitude 113 ft
Photo ofHeimskautsgerðið Photo ofHeimskautsgerðið Photo ofHeimskautsgerðið

Heimskautsgerðið

Comments

    You can or this trail